9.9.2008 | 15:23
Gamlir Bakþankar
Þar sem andgift mín hefur undanfarið farið í annað en að halda úti reglulegum færslum á þessari síðu hef ég ákveðið að skella inn á næstu dögum þeim Bakþönkum sem ég skrifaði fyrir Fréttablaðið að mig minnir 2006.
Hvað er karlmennska?Ég hef alla tíð verið þokkalega öruggur með eigin kynhneigð, ef frá er talið örstutt tímabil í barnaskóla sem ég vil þó frekar skrifa á ótta heldur en óöryggi. Þar sem ég var líkamlega seinþroska stóð ég mig stundum að því að miða mig við bekkjarfélaga mína í sturtu eftir leikfimi. Ég áttaði mig fljótt á því að þessi forvitni gat auðveldlega misskilist og að auki vöknuðu spurningar hjá sjálfum mér um það hvort þessi forvitni mín væri eðlileg.
Ég stend í svipuðum sporum í dag, reyndar undir öðrum formerkjum. Ég er nefnilega frekar nýjungagjarn og reyni að vera opinn fyrir möguleikum. Ég lít á þetta sem kost í mínu fari. Konan mín lítur á þetta sem möguleika til að kanna til hlítar hversu langt hún getur gengið með mig.
Áður en við kynntumst skipti ég eingöngu um rúmföt fyrir stórhátíðir. Uppvask stóð aldrei lengur en í viku og aldrei skemur en fimm daga. Ég skúraði þegar ég var í rétta gírnum fyrir skúringar. Ég hef enn ekki fundið þann gír. Fötin mín þvoði ég þegar þau voru skítug. Best að umorða þetta, fötin mín þvoði ég þegar engin flík á heimilinu var hrein.
Þessu stjórnkerfi hefur verið kollvarpað. Í dag flokkast sunnudagar undir stórhátíð. Óhreint leirtau stendur helst ekki lengur en í sjö mínútur. Óhreina-tauskarfan er í raun orðin óþörf og skúringar eru núna tengdar hálfleik í beinum útsendingum ensku knattspyrnunnar. Ég verð að viðurkenna að þetta með skúringarnar fannst mér meistaralegt útspil hjá henni. Mjög sennilega samþykkt af minni hálfu í hita leiksins. Knattspyrnuleiksins þ.a.s.
Þetta eru allt jákvæðar breytingar í átt að mínum mjúka manni. En þessar breytingar verða að vera undir ströngu eftirliti og ég verð að vera vakandi fyrir hættumerkjum. Þegar vel gengur hættir fólki til að ofmetnast og jafnvel setja stefnuna á eitthvað sem það sækist ekki eftir í raun og veru. Þetta held ég að konan mín hafi lent í með mig. Ég skal útskýra þetta aðeins nánar.
Á þeim tíma sem við höfum verið saman hef ég farið í fótsnyrtingu, látið plokka á mér augabrúnirnar tvisvar, fengið mér (okkur) Chihuahua hund og næstum því farið á Michael Bolton tónleika. Þegar ég fann krem inná baði og gat ekki staðist mátið að bera það á leggina á mér hvolfdi skyndilega yfir mig þeirri tilfinningu að nú væri botninum náð. Hingað og ekki lengra.Ég hef ákveðið að raka mig ekki í viku og þegar ég raka mig ætla ég að gera það með veiðihníf. Ég ætla að neita að skúra í hálfleik, skúringarnar geta beðið þangað til eftir leikinn. Ég ætla að ganga í sömu sokkunum þrjá daga í röð. Og ef konan mín sættir sig ekki við þessar breytingar......... þá..........verð ég bara að kyngja því.
Um bloggið
Eða því sem næst
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að fá að rifja þessa þanka upp.... Fannst þú oft skemmtilegur þarna á bakhliðinni...
Er búin að vera að bíða eftir skemmtiskrifum hér síðan ég sendi þér beiðni um bloggvináttu.....
Hlakka til að lesa meira.....
Helga Dóra, 10.9.2008 kl. 10:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.