Gleðitár og kaldur sviti

Kristján, 10 ára sonur minn, hringdi í mig í dag og eins og venjulega vatt hann sér beint að efninu.

Kristján "Pabbi, hvað heitir þetta aftur.....þarna....svona húsasali.....nema ekki það"

Ég "Ertu að meina fasteignasali?"

Kristján "Já einmitt, takk" 

Sagði hann og bjó sig undir að slíta samtalinu

Ég "Ertu að segja einhverjum við hvað ég vinn?"

Kristján "Nei nei"

Ég "Nú, hvað þá?"

Kristján "Það var bara einn að spyrja mig hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór"

Blessað barnið. Ætli hann vilji fá slitgigtina mína líka?


Það læra börnin.......

Synir mínir, 10 og 15 ára voru að spjalla saman í aftursætinu í dag. Í miðjum kítingum verður öðrum þeirra á orði að þeir séu yfirleitt að rífast um ekki neitt og þegar betur sé að gáð séu þeir sammála um þrætuefnið en orði hlutina bara mismunandi. Mér varð hugsað til seinustu 1500 skipta sem ég og Magga mín höfum rifist og það yljaði mér um hjartaræturnar (jafnframt sem um mig fór hrollur) að þessu skyldu drengirnir átta sig á tuttugu árum yngri en ég.

Smá brók

Þegar ég nálgaðist húsið mitt í kvöld sá ég ókunnugan bíl í öðru bílastæðinu okkar. Ég lagði við hliðina, vippaði mér út og heilsaði manninum sem stóð boginn yfir opinni vélarhlífinni á bílnum og spurði hann í beinu framhaldi hvort allt væri í klessu. Hann leit upp, hristi hausinn, benti niður á vélina og svaraði á bjagaðri íslensku "nei nei nei, bara smá brók".


Baksíðan á Andrés Önd

Þegar ég las þessa frétt minnti hún mig á eitthvað, ég mundi ekki strax hvað það var en skömmu síðar laust í huga mér brandara sem ég las aftan á Andrés blaði fyrir mörgum árum. Hann var eitthvað á þessa leið:

Fastagestur veitingahúss sest við sama borð og hann hefur sest við í ótalin ár. Í þessi ótöldu ár hefur hann ávallt pantað sama réttinn á matseðlinum. En þegar þjónninn spyr hann hvort hann vilji það sama og venjulega biður kúnninn þjóninn um að koma sér á óvart í þetta skiptið. Eftir korter kemur þjónninn með sama rétt og kúnninn hafði ávallt pantað.


mbl.is Ekki þörf á aðgerðapakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlir Bakþankar

Í denn

Það sést kannski ekki á mér í dag, en þegar ég var stubbur átti ég til að neita að borða matinn minn. Þá var brugðið á það ráð að gefa mér bita fyrir hina og þessa, aðallega þó dýr því það var vitað að dýrunum vildi ég alls ekki bregðast. Ég snæddi því oft heilu hlössin af mat fyrir krumma, voffa, hoho, mumu og síðast en ekki síst Kauku í kjallaranum. Ég sá þá gömlu kerlingu reyndar aldrei sjálfur en ég hef það staðfest frá afa að hún sé til og hafi flutt í kjallarann okkar þegar hún skildi við Hóla, sem bjó í hól uppí fjalli. Heimilisfólkið bar henni söguna misvel og útlits-lýsingarnar voru æði misjafnar. Þegar ég átti að vera einn heima var hún víst hin besta kerling en þegar ég var óþægur var mér sagt að hún ætti það til að verða ansi pirruð og að það stæði jafnvel til að ég færi niður í pössun til hennar.

Keppnisskapið í mér kom snemma í ljós og var í kjölfarið gróflega misnotað af heimilisfólkinu, aðallega þó af móðurbróðir mínum sem er tíu árum eldri en ég. “Þú getur nú örugglega ekki vaskað allt þetta upp Venni” eða “þessi ryksuga er allt of þung fyrir þig Venni litli, láttu mig gera þetta, ég er svo sterkur” eru dæmi um setningar sem spöruðu honum heilu dagsverkin. Það er mér ferskt í minningunni hvernig hann tók því alltaf með bros á vör að þurfa að éta allar þessar fullyrðingar ofan í sig aftur.

Ég var aldrei gefinn fyrir sendiferðir en ef afi svo mikið sem gjóaði augunum í átt að einhverju sem líktist klukku var ég rokinn af stað, vitandi að ég hafði fengið enn eitt gullið tækifærið til að slá “metið”. Ég man líka að oftar en einu sinni reyndi ég að áfrýja tímanum sem ég fékk til hæstaréttar (ömmu) þar sem afi var alltof lengi að finna klukkuna aftur þegar ég kom úr sendiferðinni. Hver sekúnda skipti að sjálfsögðu máli þegar “metið” var annars vegar.

Afi mældi mig reglulega eftir aðferð sem hann kallaði “Slappa-tappa-mælikvarðann” sem fólst í því að ég kreppti upphandleggsvöðvann og afi þreifaði á honum og gaf mér stig. Metið þar er víst tíu, sem furðulegt nokk er í eigu afa. Ég skoraði aldrei yfir fimm á mínum yngri árum en náði reyndar upp í sjö ´96, rétt áður en ég fór á Ólympíuleikana. Mig grunar reyndar ennþá að þetta hafi verið framlag afa til mín fyrir keppnina því strax að leikunum loknum hringdi hann í mig og lækkaði mig aftur niður í fimm og hálfan.

Þegar ég lít tilbaka finnst mér líka furðulegt að hafa aldrei náð að vinna afa í “Hver er fyrstur að sofna”. Ég var víst stundum nokkuð nálægt sigri, sagði afi mér morguninn eftir, en í þau skipti sagðist afi hafa sofnað bara nokkrum sekúndum á undan mér.


Gamlir Bakþankar

Hunangs-skinkan
 
Ég fór í matvöruverslun á laugardagskvöldið. Klukkan var orðin hálf ellefu og matvöruverslanir sem eru opnar á þeim tíma eru ekki í beinu verðstríði við Bónus. Ég var samt ekki að einblína á verðið, ég var bara svangur. Ég ákvað að kaupa mér brauð og til að hafa máltíðina "deluxe" keypti ég mér álegg að auki. Það voru nokkrar tegundir af áleggi til en það álegg sem heillaði mig mest var Hunangs-skinkan. Mér finnst skinka góð og mér finnst hunang gott og því var þetta mér auðselt hugtak. Talandi um samsetningar að þá gæfi það mér auka tíu mínútur á morgnanna ef einhver af stóru morgunkornsrisunum næði að sameina kornflex og kaffi. En það er auðvitað allt annar fótleggur.


Þegar ég kom heim með dýrðina settist ég að snæðing og ætla ég ekki að eyða óþarfa orðum á máltíðina, en að henni lokinni tók ég það sérstaklega fram við konuna mína að hundstíkin okkar fengi ekki svo mikið sem eitt gramm af þessari Hunangs-skinku. Fyrir það fyrsta var var skál tíkarinnar full af hundamat, sem tíkin einhverra hluta vegna lítur á sem neyðarúrræði, í öðru lagi var Hunangs-skinkan á mjög ó-Bónuslegu verði og í þriðja lagi var þarna um að ræða mat fyrir sæl- og fagurkera sem sjö ára gömul mexíkósk tík kynni klárlega ekki að meta til fulls.

Þegar konan mín var búin að gefa tíkinni sneið af Hunangs-skinkunni fór ég í fýlu, sem er fyrir mig eins og hundamatur er fyrir tíkina okkar, neyðarúrræði. Ég veit ekki hvernig það er hjá ykkur en persónulega hugsa ég ekki skýrt þegar ég er í fýlu. Ég get til dæmis ekki útskýrt hverju ég hélt að ég fengi áorkað með því að rjúka í ísskápinn, rífa út restina af skinkunni og henda henni í hundaskálina. Reyndar varð ég að leggja sneiðarnar ofan á hundamatinn sem var þar fyrir. Hundinum fannst þetta æðislegt, konan hló sig í svefn en ég sat eftir í fýlu, Hunangs-skinkulaus.
 

Eftir á að hyggja þá sé ég auðvitað klárlega hvar ég byrjaði að fara halloka í þessari atburðarrás. Ég sé hvað ég gerði rangt og ég hef heitið sjálfum mér því að gera betur næst. Núna veit ég að næst þegar ég fæ mér Hunangs-skinku verður það á fínu veitingahúsi.
Þar er bannað að vera með hunda.


Gamlir Bakþankar

Eftirfarandi Bakþanki var nú bara helv.... gott skúbb hjá mér á sínum tíma. Eitthvað sem fáir höfðu pælt í og eitthvað sem margir ættu að pæla í nú til dags þegar það kostar næstum því 30 kr mín að hringja í NOVA úr öðru kerfi, auk þess sem þeir rukka ekki sekúndu gjald heldur fyrir hálfa mín. Ég skráði mig í NOVA til að lækka símareikninginn minn, sem það og gerði umtalsvert, en guð hjálpi þeim sem hringja í mig.

Hver er hvað?

Hvernig væri það ef það matvörubúðir hétu ekki neitt. Verðin stæðu ekki á vörunum og þú fengir bara einn heildar reikning sendan um mánaðarmótin. Þar væri tekið fram hversu mikið af hinu og þessu þú hefðir keypt og hversu mikið þú þyrftir nú að borga fyrir það. Reyndar fengirðu að vita að sumar vörurnar væru ódýrar í sumum búðunum en þú vissir bara ekki hvaða vörur né í hvaða búðum. Mánaðarlegi matarreikningurinn frá Búðunum væri í raun bara mánaðarlotterí.

 

Þetta mundum við íslendingar auðvitað aldrei sætta okkur við. Við viljum vita hvað maturinn sem við kaupum kostar. Við kunnum á matvörumarkaðinn. Jóhannes kenndi okkur á´ann. En auk þess að vera annálaðir matgæðingar þá finnst okkur líka gaman að tala, aðallega um okkur sjálf auðvitað og ef enginn er nálægur til að hlusta þá notum við símann. Og þar erum við komin á markað sem við virðumst sætta okkur við að hafa ekki hugmynd um hvað við greiðum fyrir.

 

Þegar símafyrirtækin ákváðu að auðvelda notendum að skipta þeirra á milli með því að bjóða þeim að halda gamla númerinu frá samkeppnisaðilanum þá virtist það snilldar lausn fyrir neytendur. Fólk þurfti ekki lengur að hringja í alla vini og kunningja sína og tilkynna nýja númerið. Fæstir hafa spáð í að núna er ógerningur að vita hjá hvaða símafyrirtæki viðkomandi númer er þegar hringt er í það og þar af leiðandi að vita hvað hver og einn er að borga fyrir símtalið því eins og flestir vita að þá er miklum mun dýrara að hringja í “óvinanúmer” samkeppnisaðilans heldur en “vinanúmer” sama fyrirtækis.

 

Á ég virkilega að þurfa að byrja öll símtöl á því að spyrja viðmælanda minn hjá hvaða fyrirtæki hann er með símaþjónustuna sína ef ég ætla að halda utan um símreikninginn minn? Og þó svo að fólk sé hjá einhverju tilteknu fyrirtæki þennan daginn þá gæti það allt eins skipt þann næsta án þess að tilkynna það hvorki mér né umheiminum. Er þetta ekki bara nokkuð svipað dæminu hér að ofan með búðirnar?

 

Stór þáttur er líka sá að við kunnum ekki við að spyrja. Við erum sett í þá aðstöðu að sætta okkur frekar við “ránið” heldur en að hljóma sem nirflar. Er betra að þegja bara, borga og halda “kúlinu”?

 


Gamlir Bakþankar

 Ég sé að þessi Bakþanki er tilvalinn fyrir Gísla Tryggvason Neytendatalsmann að velta sér aðeins uppúr. Ég skora jafnvel á hann að birta eftirfarandi reynslusögu á heimasíðu sinni, enda hagsmunamál fyrir neytendur sem mig að ná að brjótast út úr vítahring "stjórnaðra innkaupa".

 Verslunarvandræði

Ég á í miklum vandræðum með innkaup á heimilið. Mér hefur jafnvel flogið í hug að ég sé einhverfur innkaupalega séð. Það virðist engu máli skipta hversu vel skipulagður ég er þegar ég fer í matvöruverslun því það eru alltaf sömu hlutirnir sem kaupi. Tómatsósa, bakaðar baunir, hrísgrjón, pasta og aspas. Hótanir spússu minnar leysast upp í ekkert á augnablikinu sem ég stíg inn í verslunina. Bökuðu baunirnar voru reyndar ekki vandamál lengi vel því ég var duglegur að torga þeim og því kom það ekki að sök þó ég verslaði eina dós í hverri ferð. En þegar þeir byrjuðu að selja fjórar dósir saman í pakka fór að síga á ógæfu hliðina hjá mér. Við síðustu talningu voru átta baunadósir í eldhússkápnum.

Fyrsta skref í átt að bata er að viðurkenna vandamálið. Ég er búinn að gera það. Næsta skref er að leita sér hjálpar. Ég hef reynt það. Ég sá nefnilega pistil í einhverju blaði um daginn þar sem fjallað var um sölugildrur í verslunum. Ég las hann með miklum áhuga. Þar stóð að allar betri verslanir séu gaumgæfilega uppsettar til þess að stjórna hvernig neytandinn verslar inn. Gert væri ráð fyrir hvaða leið neytandinn fari í gegnum verslunina og sölugildrunum plantað á þeirri leið. Lausnin hljómaði einföld. Labba öfugan hring. Þetta þótti mér áhugavert og ákvað að prófa.Þegar til þess kom reyndist það hægara sagt en gert að snúa ferðinni við. Í fyrsta lagi komst ég ekki inn í verslunina fyrr en hjón sem höfðu nýlokið sínum innkaupum komu að sjálfvirku hurðinni sem opnaðist fyrir þau. Ég stakk mér inn og vorkenndi parinu hljóðlega fyrir að hafa látið plata sig enn einu sinni. Þau hefðu átt að lesa greinina.Þegar ég hafði troðið mér framhjá röðinni við kassann gat ég hafið innkaupin. Reyndar varð ég fyrst að verða mér út um kerru þar sem þær af eru ásettu ráði eingöngu staðsettar við innganginn í þeim tilgangi að gera okkur skynsömu neytendunum erfiðara fyrir. Þessi öfuga búðarferð tók mig lengri tíma en venjuleg búðarferð þar sem ég synti eins og lax á leið upp gegn straumi fólks sem var í óða önn að láta búðina stjórna innkaupunum fyrir sig. Greyin. Þegar ég stóð loksins við innganginn og hafði lokið innkaupunum snéri ég við í átt að afgreiðslukassanum. Ég var mjög meðvitaður um gildrurnar sem biðu mín á þeirri leið og náði því að blokkera á umhverfið.  Ég einblíndi á kerruna og á tímabili urðum við eitt. Það tókst. Ég komst klakklaust að afgreiðslukassanum.En þegar uppi var staðið kom í ljós að ég hafði verslað, reyndar í öfugri röð, nákvæmlega sömu vörur og venjulega.

Næsta síða »

Höfundur

Vernharð Þorleifsson
Vernharð Þorleifsson
Fyrrverandi pylsusali, hef náð nánast fullum bata síðan.

Um bloggið

Eða því sem næst

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband