Gamlir Bakþankar

 Ég sé að þessi Bakþanki er tilvalinn fyrir Gísla Tryggvason Neytendatalsmann að velta sér aðeins uppúr. Ég skora jafnvel á hann að birta eftirfarandi reynslusögu á heimasíðu sinni, enda hagsmunamál fyrir neytendur sem mig að ná að brjótast út úr vítahring "stjórnaðra innkaupa".

 Verslunarvandræði

Ég á í miklum vandræðum með innkaup á heimilið. Mér hefur jafnvel flogið í hug að ég sé einhverfur innkaupalega séð. Það virðist engu máli skipta hversu vel skipulagður ég er þegar ég fer í matvöruverslun því það eru alltaf sömu hlutirnir sem kaupi. Tómatsósa, bakaðar baunir, hrísgrjón, pasta og aspas. Hótanir spússu minnar leysast upp í ekkert á augnablikinu sem ég stíg inn í verslunina. Bökuðu baunirnar voru reyndar ekki vandamál lengi vel því ég var duglegur að torga þeim og því kom það ekki að sök þó ég verslaði eina dós í hverri ferð. En þegar þeir byrjuðu að selja fjórar dósir saman í pakka fór að síga á ógæfu hliðina hjá mér. Við síðustu talningu voru átta baunadósir í eldhússkápnum.

Fyrsta skref í átt að bata er að viðurkenna vandamálið. Ég er búinn að gera það. Næsta skref er að leita sér hjálpar. Ég hef reynt það. Ég sá nefnilega pistil í einhverju blaði um daginn þar sem fjallað var um sölugildrur í verslunum. Ég las hann með miklum áhuga. Þar stóð að allar betri verslanir séu gaumgæfilega uppsettar til þess að stjórna hvernig neytandinn verslar inn. Gert væri ráð fyrir hvaða leið neytandinn fari í gegnum verslunina og sölugildrunum plantað á þeirri leið. Lausnin hljómaði einföld. Labba öfugan hring. Þetta þótti mér áhugavert og ákvað að prófa.Þegar til þess kom reyndist það hægara sagt en gert að snúa ferðinni við. Í fyrsta lagi komst ég ekki inn í verslunina fyrr en hjón sem höfðu nýlokið sínum innkaupum komu að sjálfvirku hurðinni sem opnaðist fyrir þau. Ég stakk mér inn og vorkenndi parinu hljóðlega fyrir að hafa látið plata sig enn einu sinni. Þau hefðu átt að lesa greinina.Þegar ég hafði troðið mér framhjá röðinni við kassann gat ég hafið innkaupin. Reyndar varð ég fyrst að verða mér út um kerru þar sem þær af eru ásettu ráði eingöngu staðsettar við innganginn í þeim tilgangi að gera okkur skynsömu neytendunum erfiðara fyrir. Þessi öfuga búðarferð tók mig lengri tíma en venjuleg búðarferð þar sem ég synti eins og lax á leið upp gegn straumi fólks sem var í óða önn að láta búðina stjórna innkaupunum fyrir sig. Greyin. Þegar ég stóð loksins við innganginn og hafði lokið innkaupunum snéri ég við í átt að afgreiðslukassanum. Ég var mjög meðvitaður um gildrurnar sem biðu mín á þeirri leið og náði því að blokkera á umhverfið.  Ég einblíndi á kerruna og á tímabili urðum við eitt. Það tókst. Ég komst klakklaust að afgreiðslukassanum.En þegar uppi var staðið kom í ljós að ég hafði verslað, reyndar í öfugri röð, nákvæmlega sömu vörur og venjulega.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vernharð Þorleifsson
Vernharð Þorleifsson
Fyrrverandi pylsusali, hef náð nánast fullum bata síðan.

Um bloggið

Eða því sem næst

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband