Gamlir Bakþankar

Þar sem andgift mín hefur undanfarið farið í annað en að halda úti reglulegum færslum á þessari síðu hef ég ákveðið að skella inn á næstu dögum þeim Bakþönkum sem ég skrifaði fyrir Fréttablaðið að mig minnir 2006.

Hvað er karlmennska?

Ég hef alla tíð verið þokkalega öruggur með eigin kynhneigð, ef frá er talið örstutt tímabil í barnaskóla sem ég vil þó frekar skrifa á ótta heldur en óöryggi. Þar sem ég var líkamlega seinþroska stóð ég mig stundum að því að miða mig við bekkjarfélaga mína í sturtu eftir leikfimi. Ég áttaði mig fljótt á því að þessi forvitni gat auðveldlega misskilist og að auki vöknuðu spurningar hjá sjálfum mér um það hvort þessi forvitni mín væri eðlileg.

Ég stend í svipuðum sporum í dag, reyndar undir öðrum formerkjum. Ég er nefnilega frekar nýjungagjarn og reyni að vera opinn fyrir möguleikum. Ég lít á þetta sem kost í mínu fari. Konan mín lítur á þetta sem möguleika til að kanna til hlítar hversu langt hún getur gengið með mig.

Áður en við kynntumst skipti ég eingöngu um rúmföt fyrir stórhátíðir. Uppvask stóð aldrei lengur en í viku og aldrei skemur en fimm daga. Ég skúraði þegar ég var í rétta gírnum fyrir skúringar. Ég hef enn ekki fundið þann gír. Fötin mín þvoði ég þegar þau voru skítug. Best að umorða þetta, fötin mín þvoði ég þegar engin flík á heimilinu var hrein.

Þessu “stjórnkerfi” hefur verið kollvarpað. Í dag flokkast sunnudagar undir stórhátíð. Óhreint leirtau stendur helst ekki lengur en í sjö mínútur. Óhreina-tauskarfan er í raun orðin óþörf og skúringar eru núna tengdar hálfleik í beinum útsendingum ensku knattspyrnunnar. Ég verð að viðurkenna að þetta með skúringarnar fannst mér meistaralegt útspil hjá henni. Mjög sennilega samþykkt af minni hálfu í hita leiksins. Knattspyrnuleiksins þ.a.s.

Þetta eru allt jákvæðar breytingar í átt að mínum mjúka manni. En þessar breytingar verða að vera undir ströngu eftirliti og ég verð að vera vakandi fyrir hættumerkjum. Þegar vel gengur hættir fólki til að ofmetnast og jafnvel setja stefnuna á eitthvað sem það sækist ekki eftir í raun og veru. Þetta held ég að konan mín hafi lent í með mig. Ég skal útskýra þetta aðeins nánar.

Á þeim tíma sem við höfum verið saman hef ég farið í fótsnyrtingu, látið plokka á mér augabrúnirnar tvisvar, fengið mér (okkur) Chihuahua  hund og næstum því farið á Michael Bolton tónleika. Þegar ég fann krem inná baði og gat ekki staðist mátið að bera það á leggina á mér hvolfdi skyndilega yfir mig þeirri tilfinningu að nú væri botninum náð. Hingað og ekki lengra.

Ég hef ákveðið að raka mig ekki í viku og þegar ég raka mig ætla ég að gera það með veiðihníf. Ég ætla að neita að skúra í hálfleik, skúringarnar geta beðið þangað til eftir leikinn. Ég ætla að ganga í sömu sokkunum þrjá daga í röð. Og ef konan mín sættir sig ekki við þessar breytingar......... þá..........verð ég bara að kyngja því.


Duglaus innheimtufyrirtæki

Á tímum sem þessum reynir á það hverjir eru alvöru og hverjir ekki. Nú þegar skuldarar skjótast um bæinn eins og silfurskottur er þörf á mönnum sem taka vinnuna sína alvarlega. Það er ómögulegt að taka alvarlega innheimtukröfur frá nöfnum eins og Greiðsluskil eða Netskil og þar fram eftir götunum. Nýja innheimtufyrirtækið sem ég sé fyrir mér mundi heita Brotin hnéskil. Ég mundi amk hugsa mig tvisvar um ef ég fengi innheimtubréf frá því fyrirtæki.


Amen

Fann þennan gullmola í gömlu tölvunni hennar múttu. Kristján sonur minn 3ja ára svona við það að ná fullu valdi á Faðir vorinu.


Til hamingju með kreppuna

Ég áttaði mig á því í dag þvílík forréttindi það eru að taka þátt í kreppunni af heilum hug. Þá meina ég að vera ekki fórnarlamb kreppunar heldur vera virkur þáttakandi. Ljósið kviknaði hjá mér þar sem ég sat í kaffistofunni okkar á RE/MAX Borg og borðaði hádegismatinn minn, samloku sem ég hafði smurt mér með einhverju grasi og tveimur ostasneiðum. Ég tók einn bita og tuggði og á meðan ég tuggði hann sá ég hvar glitti í dós af kotasælu í ísskápnum. Ég stóð upp, sótti kotasæludósina og smurði vænni tuggu af innihaldinu ofan á grasið í samlokunni minni og fékk mér í beinu framhaldi annan bita og ég get sagt ykkur það að þetta var algjörlega himneskur biti sem ég tuggði þarna í dágóða stund. Á meðan ég kláraði samlokuna mína, sem ég skolaði niður með kristaltæru kranavatni, varð mér hugsað til þeirra sem hafa sigrast á dauðanum, yfirleitt tímabundið. Samkvæmt sögunum lærir þetta fólk að meta lífið á nýjan leik, ekki ósvipað minni reynslu af kotasælu.

Munið að kreppan er til að taka þátt í og njóta. Hún eykur lífsgæðin okkar, innan frá.


Það sem ekki fylgdi fréttinni...

.... var að skilyrðum Ólafs Ragnars Grímssonar, um að íslensku keppendurnir njóti ýmissa fríðinda á leikunum sjálfum, hefur enn ekki verið svarað. Þykja sum skilyrðin ansi róttæk, til að mynda það að íslensku sundmennirnir fái að byrja einni mínútu á undan keppinautum sínum. Kröfur Ólafs eru byggðar á því að það flokkist undir mannréttindabrot að "láta börn frá Íslandi undir sama hatt og harðsvíraða útlendinga".

Oli

"Annað væri bara ósanngjarnt. Kínverjar vilja örugglega ekki láta bendla sig við svona mismunun" sagði Ólafur ákveðinn.


mbl.is Frakkar setja skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki fylgdi fréttinni.....

...er að líklegt þykir að DNA sem fannst í þornuðu hlandi skammt frá steingerða saurnum staðfesti að hundahald hafi verið nokkuð algengt.

oldhydrant

Brunahaninn var útmiginn og auðvelt reyndist að ná góðum sýnum.


mbl.is Nýjar vísbendingar um fyrstu mennina í Ameríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki fylgdi fréttinni....

.... er að Jónunn mun strax í kjölfarið taka við sem sölustjóri Dressmann í Smáralind.
mbl.is Hættir verslunarrekstri 97 ára að aldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki fylgdi fréttinni......

.......... er að þó svo að lífslíkur íslensku kvennanna hafi ekki aukist þykja lífsgæði þeirra mjög mikil, einkum og sér í lagi seinustu 3,5 meðalár þeirra.
mbl.is Lífslíkur karla batna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem fylgdi ekki fréttinni...

... er að svo virðist sem að ekki hafi verið um mótmæli gegn eldsneytisverði að ræða heldur hafi nokkrir athafnamenn úr nærsveitunum fengið nóg af "menningarleysinu" á Akureyri og ákveðið að "reyna að blása smá lífi í pleisið" eins og Stefán Þengilsson talsmaður þeirra orðaði það. "Þetta skítapleis á að heita höfuðborg norðurlands en þegar maður kemur í bæinn er aldrei kjaftur á ferð, bærinn hefur verið meira og minna dauður síðan Rúntinum var lokað ´89"

big-trucker

Stefáni var ekki skemmt eins og sjá má


mbl.is Bílstjórar mótmæla á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki fylgdi fréttinni.....

..... var að mótmælendum við Austurvöll barst óvæntur liðsstyrkur þegar sjálfur Helgi Hóseasson mætti í fullum skrúð og sýndi góða takta, enda þaulvanur mótmælandi þar á ferð. Á milli háværra mótmæla Helga, gaf hann sér þó tíma til að kenna óvanari mómælendum nokkur grundvallaratriði í "mótmælsku" eins og sést á myndinni. "Aðalatriðið er að vita hverju maður er að mótmæla" sagði Helgi og beindi orðum sínum til nokkurra einstaklinga sem greinilega höfðu flýtt sér um of á Austurvöll.

afturganga25


mbl.is Mótmælt við Austurvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vernharð Þorleifsson
Vernharð Þorleifsson
Fyrrverandi pylsusali, hef náð nánast fullum bata síðan.

Um bloggið

Eða því sem næst

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband