Gamlir Bakþankar

Hunangs-skinkan
 
Ég fór í matvöruverslun á laugardagskvöldið. Klukkan var orðin hálf ellefu og matvöruverslanir sem eru opnar á þeim tíma eru ekki í beinu verðstríði við Bónus. Ég var samt ekki að einblína á verðið, ég var bara svangur. Ég ákvað að kaupa mér brauð og til að hafa máltíðina "deluxe" keypti ég mér álegg að auki. Það voru nokkrar tegundir af áleggi til en það álegg sem heillaði mig mest var Hunangs-skinkan. Mér finnst skinka góð og mér finnst hunang gott og því var þetta mér auðselt hugtak. Talandi um samsetningar að þá gæfi það mér auka tíu mínútur á morgnanna ef einhver af stóru morgunkornsrisunum næði að sameina kornflex og kaffi. En það er auðvitað allt annar fótleggur.


Þegar ég kom heim með dýrðina settist ég að snæðing og ætla ég ekki að eyða óþarfa orðum á máltíðina, en að henni lokinni tók ég það sérstaklega fram við konuna mína að hundstíkin okkar fengi ekki svo mikið sem eitt gramm af þessari Hunangs-skinku. Fyrir það fyrsta var var skál tíkarinnar full af hundamat, sem tíkin einhverra hluta vegna lítur á sem neyðarúrræði, í öðru lagi var Hunangs-skinkan á mjög ó-Bónuslegu verði og í þriðja lagi var þarna um að ræða mat fyrir sæl- og fagurkera sem sjö ára gömul mexíkósk tík kynni klárlega ekki að meta til fulls.

Þegar konan mín var búin að gefa tíkinni sneið af Hunangs-skinkunni fór ég í fýlu, sem er fyrir mig eins og hundamatur er fyrir tíkina okkar, neyðarúrræði. Ég veit ekki hvernig það er hjá ykkur en persónulega hugsa ég ekki skýrt þegar ég er í fýlu. Ég get til dæmis ekki útskýrt hverju ég hélt að ég fengi áorkað með því að rjúka í ísskápinn, rífa út restina af skinkunni og henda henni í hundaskálina. Reyndar varð ég að leggja sneiðarnar ofan á hundamatinn sem var þar fyrir. Hundinum fannst þetta æðislegt, konan hló sig í svefn en ég sat eftir í fýlu, Hunangs-skinkulaus.
 

Eftir á að hyggja þá sé ég auðvitað klárlega hvar ég byrjaði að fara halloka í þessari atburðarrás. Ég sé hvað ég gerði rangt og ég hef heitið sjálfum mér því að gera betur næst. Núna veit ég að næst þegar ég fæ mér Hunangs-skinku verður það á fínu veitingahúsi.
Þar er bannað að vera með hunda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vernharð Þorleifsson
Vernharð Þorleifsson
Fyrrverandi pylsusali, hef náð nánast fullum bata síðan.

Um bloggið

Eða því sem næst

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband