Gamlir Bakþankar

Í denn

Það sést kannski ekki á mér í dag, en þegar ég var stubbur átti ég til að neita að borða matinn minn. Þá var brugðið á það ráð að gefa mér bita fyrir hina og þessa, aðallega þó dýr því það var vitað að dýrunum vildi ég alls ekki bregðast. Ég snæddi því oft heilu hlössin af mat fyrir krumma, voffa, hoho, mumu og síðast en ekki síst Kauku í kjallaranum. Ég sá þá gömlu kerlingu reyndar aldrei sjálfur en ég hef það staðfest frá afa að hún sé til og hafi flutt í kjallarann okkar þegar hún skildi við Hóla, sem bjó í hól uppí fjalli. Heimilisfólkið bar henni söguna misvel og útlits-lýsingarnar voru æði misjafnar. Þegar ég átti að vera einn heima var hún víst hin besta kerling en þegar ég var óþægur var mér sagt að hún ætti það til að verða ansi pirruð og að það stæði jafnvel til að ég færi niður í pössun til hennar.

Keppnisskapið í mér kom snemma í ljós og var í kjölfarið gróflega misnotað af heimilisfólkinu, aðallega þó af móðurbróðir mínum sem er tíu árum eldri en ég. “Þú getur nú örugglega ekki vaskað allt þetta upp Venni” eða “þessi ryksuga er allt of þung fyrir þig Venni litli, láttu mig gera þetta, ég er svo sterkur” eru dæmi um setningar sem spöruðu honum heilu dagsverkin. Það er mér ferskt í minningunni hvernig hann tók því alltaf með bros á vör að þurfa að éta allar þessar fullyrðingar ofan í sig aftur.

Ég var aldrei gefinn fyrir sendiferðir en ef afi svo mikið sem gjóaði augunum í átt að einhverju sem líktist klukku var ég rokinn af stað, vitandi að ég hafði fengið enn eitt gullið tækifærið til að slá “metið”. Ég man líka að oftar en einu sinni reyndi ég að áfrýja tímanum sem ég fékk til hæstaréttar (ömmu) þar sem afi var alltof lengi að finna klukkuna aftur þegar ég kom úr sendiferðinni. Hver sekúnda skipti að sjálfsögðu máli þegar “metið” var annars vegar.

Afi mældi mig reglulega eftir aðferð sem hann kallaði “Slappa-tappa-mælikvarðann” sem fólst í því að ég kreppti upphandleggsvöðvann og afi þreifaði á honum og gaf mér stig. Metið þar er víst tíu, sem furðulegt nokk er í eigu afa. Ég skoraði aldrei yfir fimm á mínum yngri árum en náði reyndar upp í sjö ´96, rétt áður en ég fór á Ólympíuleikana. Mig grunar reyndar ennþá að þetta hafi verið framlag afa til mín fyrir keppnina því strax að leikunum loknum hringdi hann í mig og lækkaði mig aftur niður í fimm og hálfan.

Þegar ég lít tilbaka finnst mér líka furðulegt að hafa aldrei náð að vinna afa í “Hver er fyrstur að sofna”. Ég var víst stundum nokkuð nálægt sigri, sagði afi mér morguninn eftir, en í þau skipti sagðist afi hafa sofnað bara nokkrum sekúndum á undan mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bullukolla

 best ég fari að reyna þetta á einn sem tilheyrir mér !

Bullukolla, 30.9.2008 kl. 23:38

2 Smámynd: Vernharð Þorleifsson

Þetta svínvirkaði á mig til ca 17 ára aldurs.

Vernharð Þorleifsson, 1.10.2008 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vernharð Þorleifsson
Vernharð Þorleifsson
Fyrrverandi pylsusali, hef náð nánast fullum bata síðan.

Um bloggið

Eða því sem næst

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband