11.9.2008 | 23:24
Gamlir Bakþankar
Eftirfarandi Bakþanki var nú bara helv.... gott skúbb hjá mér á sínum tíma. Eitthvað sem fáir höfðu pælt í og eitthvað sem margir ættu að pæla í nú til dags þegar það kostar næstum því 30 kr mín að hringja í NOVA úr öðru kerfi, auk þess sem þeir rukka ekki sekúndu gjald heldur fyrir hálfa mín. Ég skráði mig í NOVA til að lækka símareikninginn minn, sem það og gerði umtalsvert, en guð hjálpi þeim sem hringja í mig.
Hver er hvað?
Hvernig væri það ef það matvörubúðir hétu ekki neitt. Verðin stæðu ekki á vörunum og þú fengir bara einn heildar reikning sendan um mánaðarmótin. Þar væri tekið fram hversu mikið af hinu og þessu þú hefðir keypt og hversu mikið þú þyrftir nú að borga fyrir það. Reyndar fengirðu að vita að sumar vörurnar væru ódýrar í sumum búðunum en þú vissir bara ekki hvaða vörur né í hvaða búðum. Mánaðarlegi matarreikningurinn frá Búðunum væri í raun bara mánaðarlotterí.
Þetta mundum við íslendingar auðvitað aldrei sætta okkur við. Við viljum vita hvað maturinn sem við kaupum kostar. Við kunnum á matvörumarkaðinn. Jóhannes kenndi okkur á´ann. En auk þess að vera annálaðir matgæðingar þá finnst okkur líka gaman að tala, aðallega um okkur sjálf auðvitað og ef enginn er nálægur til að hlusta þá notum við símann. Og þar erum við komin á markað sem við virðumst sætta okkur við að hafa ekki hugmynd um hvað við greiðum fyrir.
Þegar símafyrirtækin ákváðu að auðvelda notendum að skipta þeirra á milli með því að bjóða þeim að halda gamla númerinu frá samkeppnisaðilanum þá virtist það snilldar lausn fyrir neytendur. Fólk þurfti ekki lengur að hringja í alla vini og kunningja sína og tilkynna nýja númerið. Fæstir hafa spáð í að núna er ógerningur að vita hjá hvaða símafyrirtæki viðkomandi númer er þegar hringt er í það og þar af leiðandi að vita hvað hver og einn er að borga fyrir símtalið því eins og flestir vita að þá er miklum mun dýrara að hringja í óvinanúmer samkeppnisaðilans heldur en vinanúmer sama fyrirtækis.
Á ég virkilega að þurfa að byrja öll símtöl á því að spyrja viðmælanda minn hjá hvaða fyrirtæki hann er með símaþjónustuna sína ef ég ætla að halda utan um símreikninginn minn? Og þó svo að fólk sé hjá einhverju tilteknu fyrirtæki þennan daginn þá gæti það allt eins skipt þann næsta án þess að tilkynna það hvorki mér né umheiminum. Er þetta ekki bara nokkuð svipað dæminu hér að ofan með búðirnar?
Stór þáttur er líka sá að við kunnum ekki við að spyrja. Við erum sett í þá aðstöðu að sætta okkur frekar við ránið heldur en að hljóma sem nirflar. Er betra að þegja bara, borga og halda kúlinu?
Um bloggið
Eða því sem næst
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.