Hættur á spenanum

Ég ákvað fyrir nokkrum dögum að krydda lífið mitt aðeins. Mér fannst það ekki nógu áhugavert þegar fólk spurði eftir því hvað ég væri að gera. "Jú jú, maður er alltaf að selja fasteignir" osfr. gat ég svarað en til lengdar er það auðvitað ekkert krassandi. Ég ákvað að prófa einhverja fóbiu, óþol eða girnd sem ég gæti vakið máls á við réttar kringumstæður. Ef valið yrði fóbía þá varð það að vera einhver skemmtileg fóbía, hræðsla við gíraffa eða eitthvað þvíumlíkt og sömu sögu er að segja um girndina, þá er ég ekki að meina að það væri girnd í gíraffa, en hún hefði þurft að vera bæði smekkleg og að sama skapi sérstök. Eftir nokkrar vangaveltur ákvað ég að fara öruggu leiðina og taka þetta í litlum skrefum. Ég ákvað að byrja á mjólkuróþoli og sjá hvert það leiði mig. Þegar það er hætt að vera ísbrjótur í samræðum þá ætti ég að vera kominn með reynslu til að prufa einhverja áhugaverða fóbíu og í kjölfarið einhverja krassandi girnd. Þannig að næst þegar þið sjáið mig á kaffihúsi, súpandi kæruleysislega eins og hver annar gestur, þá megið þið bóka það að ég verð ekki með hefðbundið leim og óspennandi cafe-latte í bollanum mínum, héðan í frá er það soyja-latte á þennan herramann.

Lalla Johns í landsliðsgallann

Öryggismiðstöðin hefur sætt harðri gagnrýni upp á síðkastið fyrir auglýsingar sínar sem skarta Lalla Johns í aðalhlutverki. Lalli hefur hingað til ekki verið skartað sem fyrirmynd og er það auðvitað ekki í þessum auglýsingum heldur en þetta gæti breyst ef hugmynd mín nær til eyrna réttra aðila. Ég legg til að Öryggismiðstöðin klæði Lalla Johns upp í íslenska landsliðsgallann, komi honum fyrir á hliðarlínunni í Stokkhólmi í kvöld og þegar Svíar eru komnir 5 til 6 mörkum yfir þá verður Lalli sendur askvaðandi í átt að dómaranum með harðfisk á lofti. Hemmi Hreiðars verður með í ráðum og tæklar hann einhverstaðar ekki of nálægt dómaranum, Íslandi verður dæmdur leikurinn tapaður en þó eingöngu 3-0, Lalli Johns verður þjóðhetja fyrir að þyrma þjóðinni þeirri niðurlægingu að tapa 15-0 fyrir Svíum og Öryggismiðstöðin tekur kredit fyrir alltsaman. Hvernig getur þetta klikkað.


Í upphafi skal endinn skoða

Var að lesa fréttir þess efnis að 365 ætli að setja Egil Helga í sóttkví.  Ég hef sjálfur lent í svipaðri aðstöðu þegar ég var fjórtán ára og vann í pylsuvagninum í göngugötunni á Akureyri. Mér þótti starfið skemmtilegt, og þar af leiðandi þá hreinlega geislaði af mér vinnugleðin þegar ég afgreiddi hvern kúnnann á fætur öðrum um eina með tómat sinnep og hráum og ef þetta var fólk sem ég treysti þá fékk það jafnvel smá slurk af rauðkáli í kaupbæti. Hróður minn barst hratt um bæinn og ekki leið á löngu þar til ég gerði mér grein fyrir að ég hafði sennilega samið af mér um kaup og kjör því góður pylsuafgreiðslumaður er ekki á hverju strái. Ég hefði sennilega getað samið við Pésa Pylsu, sem rak hinn pylsuvagninn í bænum, um 20 kalli meira á tímann ef ég hefði ekki skrifað undir bindandi samning við mömmu um að vinna í vagninum hennar allt sumarið á enda með enga von um reynslulausn.


« Fyrri síða

Höfundur

Vernharð Þorleifsson
Vernharð Þorleifsson
Fyrrverandi pylsusali, hef náð nánast fullum bata síðan.

Um bloggið

Eða því sem næst

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband